Quantcast
Channel: Kvennablaðið » flugvallarvinir
Viewing all articles
Browse latest Browse all 2

Er þetta Framsókn framtíðarinnar?

$
0
0

Guðrún Bryndís Karlsdóttir skrifar.

Ég skrifaði fyrir skemmstu í Kvennablaðið pistil sem bar heitið „Stjórnmálamaður frá páskum fram á sumardaginn fyrsta“ og vonaði að ég þyrfti ekki neinu við hann að bæta. Þar sem umræðan hefur þróast með ógnvekjandi hætti undanfarna daga get ég ekki þagað lengur samvisku minnar vegna.

Það átti ekki að koma mér á óvart að andstaða við byggingu mosku kæmi upp á yfirborðið, því sannarlega hafði ég heyrt þann málflutning innan Framsóknarflokksins. Ég hélt þó að umræðan um það mál og um múslima kæmist aldrei á það stig sem raunin er orðin, en auðvitað er best að svona afstaða komi upp á yfirborðið og að öllum sé þá ljóst hvert flokkurinn stefnir.

Umræðan um moskuna snýst ekki um skipulagmál. Hún snýst um það að halda á lofti hræðsluáróðri og ala á ótta við hið óþekkta og að afla sér atkvæða út á nákvæmlega það.

Það sem sýnilegt er öllum er loðinn málflutningur Sveinbjargar Birnu og flokksforysta sem þegir sem fastast og vísar í samþykktir flokksins. En bökkum nokkrar vikur aftur í tímann.

Stutt upprifjun

Fyrsta eldfima fjölmiðlaumfjöllun framboðs Framsóknar var í byrjun febrúar eftir fund frambjóðenda allra flokka í Stúdentakjallaranum. Óskar Bergsson oddviti Framsóknar lýsti því þá yfir að hann væri uggandi yfir stöðu kristinnar trúar í grunnskólum borgarinnar og að hann hefði gagnrýnt þau ummæli Jóns Gnarr að Jesú hafi hugsanlega verið hommi.

Ég var á þessum fundi í Stúdentakjallaranum, sat aftast og sá hvernig stemning stúdenta breyttist, fólki var greinilega brugðið vegna afstöðu oddvitans. Yfir málflutningi Óskars var klerklegur blær. Það hefur oft meiri áhrif hvernig orð eru sögð en hver þau eru.

Eftir umfjöllun fjölmiðla um fundinn fór í hönd furðulegur tími sem ég lýsi í pistlinum um minn stutta stjórnmálaferil, það var mikið talað um stöðu kristinnar trúar í samfélaginu. Ég var spurð út í trúmál með ýmsum hætti, m.a. hvort ég hefði fermst.

Svarið er: Ég bjó í Þýskalandi á unglingsárum (11–15 ára) og fékk þar mína fermingarfræðslu. Á sama tíma vorum við að læra um sögu Þýskalands og Mið-Evrópu sem einkenndist af stríðsátökum undir fána mismunandi trúarbragða. Eftir góða umhugsun ákvað ég að fermast ekki.

Þegar ég mætti í vöfflukaffi vikuna sem Jesú, Jón Gnarr  og Óskar fengu fjölmiðlaathygli, kallaði Benedikt Þór Gústafsson sem þá var varaformaður kjörnefndar mig á sinn fund.

Tilgangurinn var að fræða mig um kristin gildi flokksins og að verkefni þeirra sem kæmust í borgarstjórn væri að koma í veg fyrir að moska risi í Reykjavík.

Ástæðurnar sem Benedikt tíundaði voru m.a. að Ísland væri eitt þeirra landa sem væri nokkurn veginn laust við íslam, stærð safnaðarins réttlæti ekki bygginguna og að áformin um byggingu hefðu þann tilgang einan að fjölga áhangendum íslam.

Fleira fræddi Benedikt mig um, svo sem það að fjármögnun byggingarinnar kæmi frá olíugróða ríkra múslima sem hefðu byggt moskur í nágrannaríkjunum og að reynslan þar hefði skilað sér í mikilli fjölgun múslima sem væru nú að taka völdin. Félagslegu áhrifin væru hverfi múslima sem þægju styrki frá skattgreiðendum, þar sem lög landsins næðu ekki yfir slíkt. Brátt myndu ganga í gildi sharialög þar sem refsingin væri að hendur væru höggnar af fólki og það grýtt.

Ennfremur fræddi Benedikt mig á því að íslam sæktist eftir ungum og ráðvilltum mönnum sem fengju síðan þjálfun og væru sendir til að taka þátt í hryðjuverkum víða um heim og jafnvel til þess að deyja í nafni trúarinnar og vísaði í unga Breta sem dóu í Sýrlandi.

Undirtektir mínar við fræðslu Bernedikts voru litlar og höfðu þær afleiðingar að ég kynntist „Veggnum“, hinum ósýnilega múr og þöggun eins og ég lýsti í framangreindum pistli mínum um skammvinnan stjórnmálaferil minn. Ég var augljóslega ekki heppilegur kandidat til að flytja þjóðernishyggjuboðskap flokksins. Það reyndust hinsvegar eins og komið hefur á daginn ýmsir aðrir fáanlegir til þeirra verka.

Til þess að stofna til málefnalegrar umræðu við fólk þarf maður að eiga samleið með því og umhverfi sem einkennist af ofstæki gegn trúarbrögðum er ekki ákjósanlegur jarðvegur. Það runnu því á mig allmargar grímur þegar ég áttaði mig á í hvaða umhverfi ég var stödd.

Ég var heldur ekki rétt forrituð í húmornum – mér fannst t.d. orðið „múslimur“ ekki fyndið enda þótt „músatyppi“ fylgdi með til áréttingar og útskýringar.

Þegar Óskar Bergsson var horfinn af vettvangi hófust undarleg samskipti milli mín og Ólafs F. Magnússonar. Hann kenndi mér lausnina á því hvernig mætti ná manni inn – galdurinn væri að vera með einsmálsstefnu sem væri FLUGVÖLLURINN!

Flugvöllurinn hefur aðdráttarafl og út á hann hafði Ólafur sjálfur fengið um 10% atkvæða með stuðningi hagsmunahóps flugvallarins.

Ólafur F. skrifaði langar stuðningsyfirlýsingar við mig á Facebook og dásamaði konu í oddvitasæti – því það er svo góð söluvara. Það sem var öllu furðulegra var að í hita leiksins læddust með athugasemdir hans um að útrýmingarbúðir gyðinga væru sögufölsun.

Hugsanlegt framboð Guðna kom og fór eins allir vita og ég háði „glæsilegan“ stjórnmálferlil minn ein í fjölmiðlum í örfáa daga.

Sveinbjörg fylgdist með þessu undarlega leikriti á ferðalagi sínu um múslimalönd og birti af og til myndir með hulið hár við moskur á Facebook og sendi fréttatilkynningu til fjölmiðla 22. apríl um að hún gæfi kost á sér í oddvitasætið, rétt eins og um prófkjör væri að ræða.

Vinna við hliðarframboðið með flugvallarvinum, sem fram fór undir feldi, laut eigin reglum í samvinnu við þingmenn og forystu flokksins. Það var full eining um þetta fyrirkomulag meðal þeirra sem stóðu að framboðslistanum, eins og kom fram í fréttatilkynningu skömmu eftir að Guðni dró framboð sitt tilbaka.

Það hefur ekki farið hátt að Sveinbjörg tilheyrir fólkinu á bakvið tjöldin: sem formaður Landsambands Framsóknarkvenna, varaþingmaður Reykjavíkur og einnig er hún kjörin fulltrúi flokksins í kjörnefnd og kjörstjórn, sem hefur m.a. það hlutverk að velja fólk á framboðslista og ber ábyrgð á framboði.

Daginn eftir að nýi oddvitinn var kynntur til sögunnar fékk ég Facebook skilaboð frá Sveinbjörgu um kvennaframboð og beiðni um aðstoð við að finna konur í sex efstu sæti listans, enda væri erfitt að fjarvinna framboð frá Marokkó. Að launum fyrir aðstoðina yrði „barist“ áfram fyrir því að ég héldi 2. sæti og ég fengi að taka þátt í stefnumótunarvinnu.

Ég þáði ekki þetta góða boð enda hugsi yfir stöðu minni innan flokksins.

Mér þótti undarlegt að það var aldrei auglýst eftir fólki í framboð eftir að listinn fór uppíloft, kannski var það vegna þess að það þurfti að finna fólk með rétta hugarfarið?

Er ekki auglýst eftir frambjóðendum hjá stjórnmálaflokkum? Er vaninn að flokksforysta og þingmenn leiti með logandi ljósi að einstaklingum sem eru tilbúnir að leggja nafn sitt og heiður að veði til að flytja boðskapinn burtséð frá vilja margra innan flokksins?

Sveinbjörg fékk umboðið fyrir fyrsta sætinu kvöldið áður en listinn var kynntur ef eitthvað er að marka upplýsingarnar sem ég fékk og eftirleikinn þekkir fólk. Það fundust fjórar konur í efstu sætin og femínisti í fimmta sæti eins og Sveinbjörg kynnti listann sinn. Ekkert hefur heyrst í öðrum konum Framsóknarlistans en þeim Sveinbjörgu og Guðfinnu. Hver er afstaða annarra á listanum til múslima, hvert er umburðarlyndi þeirra? Veit það einhver? Var moskumálið lagt fyrir alla aðila og það samþykkt? Bendir eitthvað til þess?

Fimmta manninum Hreiðari Eiríkssyni kynntist ég og þekki að góðu einu, hann kemur fram af heiðarleika, er mannvinur og ber virðingu fyrir öllu því fólki sem á jörðinni býr. Hann lét af stuðningi við framboðið eins og öllum er kunnugt enda gat hann ekki sætt sig við málflutning Sveinbjargar.

Samviska mín leyfði mér heldur ekki að ljá þessum málstað fylgi mitt.

Ég hvet fólk til að kjósa, því greidd atkvæði hafa áhrif og ég hvet fólk líka til að skoða fleira en yfirborðið. Hvaða fólk er innan flokkanna og fyrir hvað stendur það í raun og veru.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 2